Aðgerð um borð í Vestmannaey VE. Ljósm. Björn Steinbekk

Veiðiferðir ísfisktogarans Vestmannaeyjar VE hafa verið stuttar upp á síðkastið. Egill Guðni Guðnason skipstjóri segir að afli hafi verið þokkalegur. „Túrarnir hafa verið stuttir vegna þess að það hefur vantað hráefni í vinnslu. Við lönduðum sl. sunnudag, en þá var aflinn 45 tonn eftir tvo daga á veiðum. Það var haldið til veiða á ný strax eftir löndun og við lönduðum 30 tonnum í gær eftir að hafa verið einungis 30 tíma á miðunum. Aflinn var mest ýsa sem við fengum á Öræfagrunni. Við fórum út aftur strax eftir löndun og ráðgert er að landa á ný á morgun. Þetta eru stuttir og snarpir túrar. Nú er veðurspáin ekki sérlega hagstæð. Ég er hræddur um að við séum að fá fyrstu haustlægðina,“ segir Egill Guðni.