Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Bergur VE landaði í heimahöfn í Vestmannaeyjum sl sunnudag og síðan aftur á þriðjudag. Í bæði skiptin var komið með fullfermi. Svipaða sögu er að segja af Vestmannaey VE en skipið landaði fullfermi á sunnudag og síðan aftur í gær. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að um hörkufiskirí hafi verið að ræða. “Það er afskaplega gott í okkur hljóðið. Það er gaman þegar vel gengur. Í báður túrunum var veitt á Pétursey og Vík og aflinn var mest ýsa og þorskur ásamt dálitlum ufsa. Farið verður út í fyrramálið og ég reikna með stuttum túr. Það er allt í blómanum,” segir Jón.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, lætur einnig vel af fiskiríinu að undanförnu. “Í fyrri túrnum veiddum við á Péturey og Vík og enduðum síðan reyndar vestur á Tá sem er vestast á Selvogsbanka. Aflinn í túrnum var mest ýsa og þorskur. Í seinni túrnum byrjuðum við vestur á Tá. Þaðan þurftum við að flýja vegan brælu og þá var farið á Planið og reynt við kola og steinbít. Síðan var farið á Péturey í lokin og fyllt. Aflinn í þessum túr var mjög blandaður. Það er gott í okkur hljóðið og það verður haldið til veiða á ný á morgun.,” segir Egill.