Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE komu til löndunar í Eyjum í nótt. Bæði skip voru með fullfermi eftir stuttan túr og var aflinn blandaður. Ragnar Waage Pálmason var skipstjóri á Bergey í veiðiferðinni og segir hann að það hafi aflast mjög vel. „Við vorum allan tímann á Péturseynni og þetta gekk vel. Þarna liggur fiskurinn í síld og síldarhrognum og það er býsna líflegt. Við fórum út eftir hádegi á sunnudag og komum til hafnar klukkan fjögur í nótt. Það var nóg að gera hjá köllunum í túrnum enda aflinn jafn og góður allan tímann,“ segir Ragnar.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að þetta hafi verið flottur túr. „Túrinn var bara 36 klukkutímar, það gekk svo vel að fá í skipið á Péturseynni. Þetta var eins og best verður á kosið og það er svo þægilegt að hafa fiskinn svona við bæjardyrnar. Þá var veðrið einnig afar gott, logn og blíða allan túrinn,“ segir Birgir Þór.
Vestmannaey hélt á ný til veiða núna fyrir hádegi og Bergey mun sigla í kjölfar hennar strax að löndun lokinni.