Kristinn V. JóhannssonÍ ræðu sinni á aðalfundi Síldarvinnslunnar hf. 12. apríl, ræddi Kristinn V. Jóhannson, stjórnarformaður félagsins, um nauðsyn þess að styrkja og efla sjávarútvegsfyrirtækin til að mæta yfirvofandi gjaldtöku, samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Kristinn telur þetta afar óréttláta gjaldtöku sem muni kosta Síldarvinnsluna 80-100 milljónir króna árlega, miðað við núverandi aðstæður. Í ræðu sinni ræddi Kristinn einnig um ímynd sjávarútvegsins og umræðuna um greinina sem hann segir neikvæða og yfirborðskennda.

Hér fer á eftir kafli úr ræðu Kristins:

„En hvernig bregðast menn við, hvað geta fyrirtækin gert?
Hagræðing hefur lengi verið lausnarorð við slíkar aðstæður, en ég leyfi mér að efast um að mikið svigrúm sé almennt til þess að öðru óbreyttu. Að minnsta kosti er hætt við, að þær aðgerðir gætu bitnað harkalega á atvinnu margra. Fyrirtækin þurfa því að styrkja sig. Það verður einkum gert á tvennan hátt:

Með því að efla innbyrðis samstarf þar sem því verður viðkomið. Það er oft fýsileg leið, en ekki er alltaf eða alls staðar kostur á því. Með samruna tveggja eða fleiri fyrirtækja í stærri heildir og þá er brýnt að löggjafinn setji ekki skorður við slíkum samruna með óeðlilegum stærðartakmörkunum.

Ef tíminn kallar á öðruvísi uppbyggingu, stærri heildir, þá verðum við að svara því kalli eða sitja eftir ella. Ákveðinn beygur eða a.m.k. tregða gegn breytingum býr í okkur flestum og allt gott um það að segja, því aldrei hefur gefist vel að breyta breytinganna vegna. Það er skoðun mín, að við þessar aðstæður verði stærri fyrirtæki betur í stakk búin til að glíma við verkefnin; raunverulega hagræðingu, sókn og nýsköpun.
Sameining eða samruni fyrirtækja er vandasamt viðfangsefni. Fyrir þarf að liggja skýr framtíðarsýn þannig að áhrif sameiningarinnar séu sem ljósust þegar í upphafi. Í hverju er hagræðingin fólgin? Hvaða verði er hún keypt? Ég geng út frá því, að ekki sé um að ræða samþjöppun veiða og vinnslu á einn stað. Slíkt mundi leiða af sér byggðaröskun, sem hefur verið ein helsta orsök neikvæðrar umræðu um fiskveiðistjórnunina. Og að auki tel ég mikinn vafa á að þannig næðist einhver stærðarhagkvæmni. En ef sameining byggir á því langtímasjónaramiði að nýta þau verðmæti sem fólgin eru í staðsetningu, uppbyggingu, þekkingu og frumkvæði heimamanna, þá getur hún – þó svo að með fylgi samþjöppun eignarhalds – virkað sem afl til nýsköpunar og gert kleift að nýta sóknarfæri sem minni einingum væri ofviða að glíma við.

Það skiptir sköpum fyrir okkur, sem búum í sjávarbyggðum landsins, að sjávarútvegurinn sé framsækinn og stundi nýsköpun. Og að sjálfsögðu þarf hann líka að vera hagkvæmur og geta greitt sæmandi og samkeppnishæf laun.
Ef leiðin til þess er að stækka fyrirtækin, eigum við ekki að vera fyrirfram hrædd við það. En menn eiga að flýta sér hægt og vanda hvert skref.
Fyrir nokkrum árum var uppi sterk umræða um það í þjóðfélaginu, að innan fárra ára yrðu ekki nema 3 til 5 stór sjávarútvegsfyrirtæki í landinu auk hóps einyrkja, sem sérhæfðu sig á einn eða annan hátt.
Og nú hefur umræðan fengið byr undir báða vængi eftir að Burðarás keypti meirihluta í ÚA og Skagstrendingi. Í fjölmiðlum hafa menn verið að draga fyrirtækin í framtíðardilka. Sumir eru jafnvel búnir að marka okkur.

Ef aðrir telja sig sjá góðan kost í samstarfi eða samruna við Síldarvinnsluna hf., er auðvitað ekkert nema gott um það að segja. En ef okkur verður boðið upp í dans, viljum við auðvitað hafa eitthvað um taktinn að segja. Það sem höfuðmáli skiptir fyrir okkur, er að hér verði byggt upp öflugt, framsækið fyrirtæki, sem boðð getur starfsfólki góð laun og gott starfsumhverfi, hluthöfunum góðan arð af fjárfestingunni og starfað í góðri sátt við sitt nánasta umhverfi og samfélag.

Ímyndin og umræðan.
Á okkar tímum skiptir ímyndin miklu máli. Ekki bara í pólítík og business, heldur allsstaðar í atvinnulífinu. Um nokkurt skeið hefur ímynd sjávarútvegsins verið afar léleg og reyndar neikvæð og kemur sjálfsagt margt til, en verður ekki rakið hér. Má þó nefna kvótaflutninga milli byggða á síðasta áratug, harðvítugar vinnudeilur í greininni og svo þær systur vanþekking og öfund. Umræðan er því miður oft harla yfirborðskennd og byggð á upphrópunum og alhæfingum. Ég get ekki stillt mig um að drepa á tvo þætti, sem mér fannst kristallast í umræðunni um brottkastið, sem væntanlega er flestum í fersku minni.

Sá fyrri er það eðli fjölmiðla, ekki síst ljósvakamiðla, að hafa fyrst og fremst áhuga á því neikvæða. Enda voru alvöru útgerðarmenn – og það eru langflestir – gerðir að blóraböggli fyrir þá sem höfðu selt sig út úr greininni, en beita síðan öllum brögðum til að klekkja á kerfinu í þeim tilgangi að brjóta það niður. Heilu umræðuþættirnir og leiðararnir eru minnisvarðar um þetta eðli. Síðari þátturinn er svo þörf sumra manna til að heyrast og sjást í fjölmiðlum. Vera í sviðsljósinu. Það er áreiðanlega til eitthvert fræðiheiti yfir þessa þörf! Þetta er ekki stór hópur og á það sammerkt að hafa einhverntíma verið áberandi í þjóðlífinu en eru það ekki lengur, a.m.k. ekki nóg að eigin áliti. Og þeir vita sem er að með því að vera bara nógu krassandi, verður tekið eftir því og það verður vitnað í þá og þeim boðið í viðtalsþætti. Og hvað gerum við? Hristum hausinn, sussum og kannski hlæjum að vitleysunni sem upp úr þeim vellur, en gleymum því að aðrir sitja opinmynntir og gleypa í sig hvert orð og hverja fullyrðingu sem heilagan sannleik – því ”annar eins maður og Oliver Lodge, fer ekki með neina lygi.”

Eðlilegt er að menn spyrji hvað sé til ráða. Ég hef engar patentlausnir, en ég veit samt að við þurfum að uppfræða þjóðina. Ekki bara börnin og æsku landsins. Einnig fjölmiðlana og stóra hópa fullvaxta fólks.

Við þurfum að troða því inn með góðu eða illu, að það var sjávarútvegurinn, sem dróg íslensku þjóðina upp úr örbirgð til efna á síðustu öld og að enn í dag er hann kjölfestan í efnahagslífinu.”