Sumarfrí hófst í fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði mánudaginn 1. júlí sl. og er gert ráð fyrir að vinnsla hefjist á ný þriðjudaginn 6. ágúst. Ísfisktogarinn Gullver NS fór í slipp á Akureyri miðvikudaginn 26. júní sl. og er áætlað að vinnu við hann þar verði lokið fimmtudaginn 18. júlí.
Það sem af er ári hefur Gullver fiskað um 3.800 tonn sem verður að teljast harla gott. Veiðin hjá skipinu hefur almennt verið jöfn og góð og veður til veiða hefur verið mjög hagstætt.