Aðgerð um borð í Bjarti NK.  Ljósm. Þorgeir BaldurssonÍsfisktogarinn Bjartur NK kom til löndunar í gær. Aflinn var 97 tonn og þar af voru um 60 tonn þorskur og 20 tonn ýsa. Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar, sem var skipstjóri í þessum túr, fóru veiðarnar fram á hefðbundnum slóðum á Breiðdalsgrunni. Framan af veiðiferðinni var afli tiltölulega tregur enda talsverður straumur og erfiðar aðstæður. En undir lokin glæddist aflinn og fiskaðist þá vel á Tólf tonna tittinum.

Nú er hafið sumarfrí hjá áhöfninni á Bjarti en að öllu óbreyttu er gert ráð fyrir að hann haldi til makrílveiða í síðari hluta júlímánaðar. Reikna Bjartsmenn með að þeir fari í 2-3 makríltúra og komi með 50-60 tonn að landi úr hverri veiðiferð.