Danska loðnuskipið Ruth að taka nótina í Neskaupstað. Ljósm. Smári Geirsson.Danska uppsjávarskipið Ruth frá Hirtshals kom til Neskaupstaðar í morgun með 1800 tonn af loðnu sem fékkst í grænlensku lögsögunni. Um borð í Ruth eru fjórir starfsmenn Síldarvinnslunnar sem eru vanir nótaveiðum og lætur skipstjórinn afar vel af þeim. Í kjölfar danska skipsins kom síðan norska skipið Saebjorn til Neskaupstaðar með um 900 tonn af loðnu.

Norsk og dönsk loðnuskip hafa verið að fá ágætan afla í grænlensku lögsögunni að undanförnu. Samkomulag er í gildi um veiðar úr þessum loðnustofni og er hlutur Íslands 81%. Hlutur Grænlendinga er 11% og Noregs 8%. Að auki fá Norðmenn ákveðinn hluta frá Íslendingum vegna samnings um veiðar í Barentshafi. Grænlendingar hafa lengi eftirlátið Evrópusambandinu 2/3 af sínum kvóta og hafa dönsk skip oft veitt þann kvóta í grænlenskri lögsögu yfir sumartímann. Norðmenn hafa síðan takmarkaðan aðgang að grænlenskri lögsögu til að veiða úr stofninum.