Frá afhendingu líkansins af Bjarti NK. Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, til vinstri og Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN til hægri.
Ljósm. Smári Geirsson

Síldarvinnslan átti sextugsafmæli árið 2017. Þá ákvað Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) að gefa fyrirtækinu líkan af skuttogaranum Bjarti í afmælisgjöf. Norðfirðingurinn Inga Höskuldsdóttir var fengin til að gera líkanið og var það afhent Síldarvinnslunni í gær. Það þótti mörgum vænt um Bjart og munu án efa njóta þess að skoða líkanið af honum sem er mjög vel gert. Bjartur kom nýr til Neskaupstaðar 2. mars árið 1973. Þá hafði hann lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar. Bjartur var smíðaður í Niigata í Japan og tók siglingin þaðan til heimahafnar í Neskaupstað 49 sólarhringa en vegalengdin var um 13. 150 sjómílur. Á leiðinni kom skipið við í Honolulu á Hawaieyjum og Balboa við Panamaskurðinn. 

Seint á árinu 1971 hafði stjórn Síldarvinnslunnar tekið ákvörðun um að láta smíða Bjart en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða sem fyrirtækið festi kaup á árið 1970 og var fyrsti togari landsmanna með hefðbundnum skuttogarabúnað. Í fyrstu var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera þá báða út. Segja má að alvöru skuttogaravæðing Íslands hafi hafist árið 1971 þegar ákveðið var að láta smíða tíu skuttogara í Japan og var Bjartur eitt þeirra skipa. 

Hinn 25. október árið 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur. Síldarvinnslan fékk skipið síðan afhent 12. janúar 1973 og daginn eftir var lagt af stað í siglinguna til Íslands. 

Bjartur var vel búið skip, stærð þess var 461 brúttótonn og aðalvélin 2000 hestöfl. Allar vélar og tækjabúnaður um borð var japanskrar gerðar að talstöðinni undanskilinni sem var dönsk. 

Frá upphafi gekk útgerð Bjarts vel og ekki þótti ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Aðalvélin var endurnýjuð árið 1984 og árið 2004 fór skipið til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Þá var skipt um hluta spilbúnaðar, plötur í skutrennu og unnið að fleiri lagfæringum. 

Bjartur var í eigu Síldarvinnslunnar í rúmlega 43 ár. Afli hans á þeim tíma var 142.730 tonn. Mestur var ársaflinn árið 1981 eða 4.568 tonn en alls fór ársaflinn sjö sinnum yfir 4.000 tonn. Minnstur var afli skipsins árið 2001, 1.953 tonn, en verulegan hluta þess árs var skipið í slipp á Akureyri vegna eldsvoða um borð. Miðað við núverandi fiskverð má ætla að aflaverðmæti Bjarts á þessu liðlega fjörutíu og þriggja ára tímabili hafi numið um 33 milljörðum króna. Þá ber að geta þess að Bjartur tók tuttugu og sex sinnum þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar. 

Bjartur var seldur til Íran árið 2016 og var afhentur hinum írönsku kaupendum í ágústmánuði það ár. 

Það var Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, sem afhenti Síldarvinnslunni líkanið af Bjarti og veitti Gunnþór B. Ingvason , forstjóri Síldarvinnslunnar, því móttöku.