Vestmannaey VE er að fá góðan vertíðarfisk þessa dagana.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Eyjaskipin Vestmannaey VE og Bergur VE héldu til veiða sl. miðvikudag og komu bæði til hafnar með fullfermi á föstudag. Afli skipanna var mest þorskur og síðan nokkuð af ýsu. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að það hafi verið mokveiði. “Við vorum á Ingólfshöfða og tókum síðan eins sköfu á Víkinni. Þarna fékkst fallegur vertíðarfiskur, 7 kg. og stærri. Það er slæm ölduspá framundan og því er ekki ákveðið hvenær farið verður út á ný,” segir Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, segir að þeir hafi veitt á Ingólfshöfða og síðan klárað á Víkinni. “Þetta var hörkutúr, alveg þrælfínn. Og fiskurinn sem fékkst var súper vertíðarfiskur, fullur af lifur og gotu. Veðrið í heimsiglingunni var ekki sérstaklega skemmtilegt en það er ekkert nýtt,” segir Jón.