Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í sjötta sinn nk. laugardag. Það eru Verkmenntaskólinn og Austurbrú sem standa fyrir deginum og eins og venjulega hefur verið vandað til alls undirbúnings. Aðgangur er ókeypis og hefst dagskráin kl. 12 og lýkur kl. 16.
Samkvæmt venju er boðið upp á fjölbreytta dagskrá á tæknideginum og lögð áhersla á að höfða til allra aldurshópa. Fjöldi fyrirtækja og stofnana munu kynna starfsemi sína og eins munu gestir geta aflað sér upplýsinga um tækninýjungar af ýmsum toga. Þá verður fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans kynnt og gestir munu geta séð þann kennslubúnað sem skólinn hefur upp á að bjóða. Á deginum munu gestir t.d. geta upplifað himingeiminn og fylgst með vélmennum keppa svo eitthvað sé nefnt. Dagskráin er svo sannarlega forvitnileg.
Að sjálfsögðu mun Síldarvinnslan taka fullan þátt í tæknideginum eins og áður. Starfsemi fyrirtækisins verður kynnt og þá verður gestum boðið að smakka ýmsar framleiðsluvörur. Hjá starfsmönnum Síldarvinnslunnar er tæknidagurinn ávallt tilhlökkunarefni. Dagurinn hefur verið afar fjölsóttur og rétt eins og áður má gera ráð fyrir því að margir leggi leið sína í Verkmenntaskólann nk. laugardag.