Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands á laugardaginn kemur. Það er Verkmenntaskólinn ásamt Austurbrú sem standa fyrir deginum og hefur undirbúningur hans staðið lengi yfir.
Mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana mun taka þátt í deginum og er Síldarvinnslan á meðal þeirra. Á tæknidegi fjölskyldunnar er kappkostað að höfða til allra aldurshópa og þar verður unnt að kynnast ýmsum tækninýjungum ásamt því að meðtaka margskonar fróðleik og hlýða á fyrirlestra. Þá geta gestir kynnt sér námsframboð Verkmenntaskólans og þá aðstöðu og tækjakost sem skólinn býður upp á. Á deginum gefst fólki tækifæri til að skoða nýjan vélarúmshermi skólans og eins mun menntamálaráðherra vígja FABLAB Austurland sem skólinn hefur komið á fót með tilstyrk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar og fyrirtækja í sveitarfélaginu. FABLAB er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði og gerir hún fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða næstum hvað sem er.
Þó svo að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á tæknideginum verður sérstök áhersla lögð á að höfða til barna og unglinga. Vísinda –Villi verður til dæmis með sýnikennslu á deginum og gestir frá Vísindasmiðju Háskóla Íslands munu leika sínar listir. Þá verður hægt að fylgjast með krufningu dýra, heimsækja störnuver og forritunarsmiðju svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna munu síðan kynna háþróaða tækni við framleiðslustarfsemi og veiðar og gestir munu eiga kost á að taka þátt í ýmsum vísindatilraunum. Þá verður tæknisögu Austurlands einnig gerð nokkur skil.
Þetta er í annað sinn sem tæknidagur fjölskyldunnar er haldinn í Verkmenntaskólanum en slíkur dagur var fyrst haldinn 16. mars 2013 og þótti heppnast afar vel. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir tóku þá þátt í deginum og lögðu mikið upp úr því að fróðleikur kæmist til skila með skýrum og greinargóðum hætti. Á þennan fyrsta tæknidag komu um 500 manns víða að af Austurlandi og bendir flest til þess að tæknidagurinn á laugardaginn verði fjölsóttur. Heilu hóparnir hafa þegar boðað komu sína og eftirvænting ríkir hjá mörgum.