Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í sjöunda sinn nk. laugardag. Það er Verkmenntaskólinn og Austurbrú sem standa að deginum og eins og venjulega er mikið lagt í dagskrána. Aðgangur er ókeypis og hefst dagskráin kl. 12 og lýkur kl. 16.
Samkvæmt venju er boðið upp á margt á tæknideginum og er lögð mikil áhersla á að höfða til allra aldurshópa. Fjöldi fyrirtækja og stofnana munu kynna starfsemi sína og eins munu gestir geta aflað sér upplýsinga um tækninýjungar af ýmsum toga. Fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans verður kynnt og gestir munu geta séð þann kennslubúnað sem skólinn hefur upp á að bjóða. Þá mun Vísindasmiðja Háskóla Íslands heimsækja tæknidaginn og verður hún með fjölbreytta dagskrá. Alls munu ellefu manns koma á vegum Vísindasmiðjunnar, en hún leggur áherslu á að stuðla að auknum áhuga barna og ungmenna á tækni og vísindum.
Að sjálfsögðu mun Síldarvinnslan kynna starfsemi sína á tæknideginum eins og hún hefur ávallt gert. Þá verður gestum boðið upp á veitingar á sýningarsvæði fyrirtækisins. Hjá starfsmönnum Síldarvinnslunnar er tæknidagurinn ávallt tilhlökkunarefni enda hefur hann verið afar fjölsóttur og vel heppnaður í alla staði. Vonandi munu sem flestir leggja leið sína í Verkmenntaskólann á laugardaginn og fullyrða má að það verður enginn svikinn af því.