2110

Starfsmenn Síldarvinnslunnar fræða unga og áhugasama gesti á tæknidegi fjölskyldunnar í fyrra. Ljósm: Smári Geirsson

Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 10. október næstkomandi. Auk Verkmenntaskólans stendur Austurbrú fyrir deginum og hefur undirbúningur staðið lengi yfir. Dagskráin hefst kl. 12.00 og lýkur kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.

                Eins og áður mun mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana kynna starfsemi sína á deginum og verður kappkostað að höfða til allra aldurshópa. Með því að koma á tæknidaginn geta gestir aflað sér upplýsinga um ýmsar tækninýjungar og hlýtt á fróðlega fyrirlestra. Þá verður fjölbreytt námsframboð Verkmenntaskólans kynnt og allur sá kennslubúnaður sem skólinn nýtir. Á meðal þess búnaðar sem gestir geta fræðst um er FABLAB- smiðjan en það er stafræn smiðja með einföldum stýribúnaði sem tekin var í notkun á tæknideginum í fyrra. Lögð er áhersla á að öll fjölskyldan og ekki síst börnin geti notið tæknidagsins. Þar verður kynnt landmótun í þrívídd, reykköfun, rafknúnir kappakstursbílar, rafmagnseinhjól (Segway-hjól) svo eitthvað sé nefnt. Félagar í Sprengjugengi Háskóla Íslands með Sprengju-Kötu í fararbroddi mun heimsækja tæknidaginn og þá verður boðið upp á skoðunarferð í Norðfjarðargöng. Dagskráin er vægast sagt fjölbreytt og er listi þátttakenda og dagskráratriða langur og forvitnilegur.

                Tæknidagurinn hefur tekist einkar vel til þessa og gestir verið fjölmargir. Í fyrra voru gestir til dæmis um sjö hundruð og má fullyrða að allir hafi þar fundið eitthvað áhugavert fyrir sig.

                Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka fullan þátt í tæknideginum sem fyrr. Mun starfsemi fyrirtækisins verða kynnt með ýmsum hætti og gestum boðið að gæða sér á nokkrum framleiðsluvörum.