Gestir á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á Tæknideginum gæða sér á masago. Ljósm. Smári GeirssonGestir á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á Tæknideginum gæða sér á masago. Ljósm. Smári GeirssonTæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Dagurinn var fjölsóttur og skráðu 623 nöfn sín í gestabækur við innganga. Víst er að nöfn hluta gestanna voru aldrei skráð og telja þeir sem best til þekkja að gestir hafi verið á bilinu 800-900 og komu þeir víða að.
 
Dagurinn, sem Austurbrú stendur fyrir ásamt Verkmenntaskólanum, heppnaðist afar vel og var tilgangi hans náð fullkomlega. Markmið dagsins er að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum á sviði tækni, verkmennta og vísinda og um leið að öll fjölskyldan geti komið saman og fræðst. Fjöldi fyrirtækja og stofnana kynnti starfsemi sína á deginum. Þar var unnt að sjá landmótun í þrívídd í eins konar sandkassa, rafknúna kappakstursbíla, rafmagnseinhjól og upplifa reykköfun. Einnig var FABLAB-verkstæðið opið og unnt að reyna sig við málmsuðu. Gestir gátu fylgst með krufningu á dýrum og sýningu Sprengjugengisins frá Háskóla Íslands og meira að segja var farið í skoðunarferð í Norðfjarðargöng sem nýlega var lokið við að sprengja. Í reynd er hægt að telja lengi upp þau atriði sem hægt var að njóta á Tæknideginum.
 
Síldarvinnslan var með kynningarbás á deginum og var hann svo sannarlega fjölsóttur. Þar gátu gestir kynnst starfsemi fyrirtækisins, skoðað framleiðslu þess og fengið að bragða á völdum afurðum. Þarna var unnt að gæða sér á eðalsíld og reyktum makríl sem reyndist sælgæti. Þá var boðið upp á unnin og lituð loðnuhrogn með mismunandi bragði en þau eru nefnd masago á japönsku.