Á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonÁ sýningarsvæði Síldarvinnslunnar á tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonHinn árlegi tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Í stuttu máli sagt tókst dagurinn frábærlega, hann var afar fjölsóttur og virtust gestir njóta dagsins til hins ítrasta. Alls skráðu 973 nöfn sín í gestabækur við innganga, en víst er að nöfn hluta gestanna voru aldrei skráð þannig að fullyrða má að gestir hafi verið vel á annað þúsund. Eru þetta mun fleiri gestir en í fyrra, en þá skráðu liðlega 300 færri nöfn sín í gestabækur.
 
Dagurinn, sem Austurbrú stendur fyrir ásamt Verkmenntaskólanum, á að höfða til allra aldurshópa og virðist það hafa tekist fullkomlega. Vakin var athygli á fjölbreyttum viðfangsefnum á sviði tækni, verkmennta og vísinda og þess vandlega gætt að börnum væri boðið upp á forvitnilegt efni. Fjöldi fyrirtækja og stofnana kynntu starfsemi sína og háskólastofnanir og fleiri veittu innsýn í vísindarannsóknir. Hægt var að fylgjast með krufningu á dýrum, skoða kappakstursbíl í raunstærð, sækja fyrirlestra um ýmis málefni, fara í skoðunarferð í Norðfjarðargöng og í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar, skoða björgunarbúnað af nýjustu gerð og þá var FABLAB- versktæðið opið svo eitthvað sé nefnt. Ævar vísindamaður bauð upp á dagskrá fyrir börnin og unnt var að kynna sér eldsmíði að fornum sið. Í reynd væri hægt að telja lengi upp allt það sem boðið var upp á á tæknideginum. Fyrir utan hina hefðbundnu dagskrá var 30 ára afmælis Verkmenntaskóla Austurlands minnst á þessum degi.
 
Síldarvinnslan var eins og áður með sýningarsvæði á tæknideginum og var það fjölsótt. Þar var unnt að kynnast starfsemi fyrirtækisins og hægt að fá að bragða á ýmsum sjávarafurðum. Þarna gæddi fólk sér á reyktri eðalsíld, niðursoðinni loðnu og lituðum loðnuhrognum sem Japanir nefna masago.
 
Elvar Jónsson skólameistari segir að mikil ánægja ríki með tæknidaginn og hann hafi í alla staði verið frábær. Aðsóknin fór fram úr björtustu vonum að hans sögn og gestirnir voru afar ánægðir með daginn. Þá segir hann að gestir komi sífellt lengra að til að njóta þess sem dagurinn býður upp á.