Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands sl. laugardag. Þetta er í annað sinn sem slíkur dagur er haldinn og er lögð áhersla á að allir aldurshópar finni eitthvað við sitt hæfi á deginum. Það eru Verkmenntaskólinn og Austurbrú sem standa fyrir þessum kynningar- og fræðsludegi en hann á ekki marga sína líka hér á landi. Dagurinn þótti heppnast vel í alla staði og sóttu hann á milli 500 og 600 gestir. Þeir sem lögðu leið sína í Verkmenntaskólann þennan dag virtust ánægðir með það sem boðið var upp á. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsemi sína á deginum og auk þess var boðið upp á fyrirlestra af ýmsu tagi. Það voru ekki síst börnin sem nutu dagsins en þau fylgdust spennt með krufningu dýra, sýnikennslu Vísinda-Villa og fleiri forvitnilegum atriðum sem voru á dagskrá. Ef til vill var hápunktur dagsins vígsla á FABLAB Austurland en það er stafræn smiðja sem gerir fólki á öllum aldri kleift að hanna og smíða eigin frumgerðir.
Síldarvinnslan tók þátt í tæknideginum og deildi þar kennslustofu með verkfræðifyrirtækinu Eflu. Fjöldi gesta heimsóttu stofuna og kynntu sér starfsemi fyrirtækjanna. Síldarvinnslan lét útbúa veggspjöld með upplýsingum um þróun og starfsemi fyrirtækisins og auk þess voru sýndar lifandi myndir frá veiðum og vinnslu. Þá var einnig sýnt NIR-tæki sem notað er til efnagreiningar og fengu gestir að sjá hvernig unnt er að nýta það til efnagreiningar á fiskimjöli. Með hjálp tækisins tekur slík greining einungis örfáar sekúndur.
Jón Már Jónsson yfirmaður landvinnslu hjá Síldarvinnslunni segir að tæknidagurinn sé til hreinnar fyrirmyndar og afar ánægjulegt sé fyrir fyrirtækið að fá tækifæri til að kynna starfsemi sína á þessum degi. Þá sé frábært að koma í Verkmenntaskólann og sjá og skynja hve öflug og vel búin stofnun hann er orðinn. Telur Jón Már afar mikilvægt að gefa almenningi kost á því að kynna sér stöðu fyrirtækja í landshlutanum og átta sig á því hve mikilvæg stofnun eins og Verkmenntaskólinn er fyrir atvinnulífið og framþróun þess.