Tæknidagur fjölskyldunnar verður haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað laugardaginn 15. október. Auk Verkmenntaskólans stendur Austurbrú fyrir deginum sem nú er haldinn í fjórða sinn. Dagskráin hefst kl. 12.00 og lýkur kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis. Dagurinn er helgaður tækni, vísindum og nýsköpun og hefur verið afar vel sóttur frá upphafi.
Eins og áður mun mikill fjöldi fyrirtækja og stofnana kynna starfsemi sína á tæknideginum og verður kappkostað að höfða til allra aldurshópa. Síldarvinnslan mun að sjálfsögðu taka fullan þátt og leggja áherslu á að gestir geti fengið góða innsýn í starfsemi fyrirtækisins.
Boðið verður upp á margt forvitnilegt á tæknideginum að þessu sinni. Hægt verður að fá að kynnast þyrluflugi í gegnum sýndarveruleikagleraugu, rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, hrálýsi úr loðnu, landmótun í sandkassa, eldsmíði að gömlum sið og mörgu fleiru. Ævar vísindamaður verður á staðnum og mun hann leiða börnin inn í töfraheim vísindanna. Þá mun verða gerð forvitnileg tilraun til að ganga á vatni svo eitthvað sé nefnt.
Verkmenntaskóli Austurlands mun einnig fagna þrjátíu ára afmæli sínu á tæknideginum en skólinn tók til starfa í ársbyrjun 1986.
Það verður enginn svikinn af því að koma á tæknidaginn og njóta þess sem þar verður boðið upp á.