Tæknidagurinn var fjölsóttur. Ljósm. Smári Geirsson

Tæknidagur fjölskyldunnar, sem haldinn var í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað sl. laugardag, heppnaðist mjög vel. Þetta var í áttunda sinn sem dagurinn er haldinn en hann féll niður síðustu tvö ár vegna kóvíd. Mikið fjölmenni lagði leið sína í skólann og gátu gestir kynnt sér starfsemi fjölmargra stofnana og fyrirtækja ásamt því að skoða kennsluaðstöðuna í skólanum. Að þessu sinni heimsótti forseti Íslands skólann á tæknideginum og veitti ungmennum verðlaun fyrir góðan árangur í samkeppni um tillögur að nýtingu á þara og þangi. Það var Verkmenntaskólinn og MATÍS sem stóðu fyrir keppninni.

Síldarvinnslan bauð gestum upp á síldarrétti og ekta harðfisk. Ljósm. Smári Geirsson

Margir heimsóttu sýningarsvæði Síldarvinnslunnar en þar var unnt að fræðast um starfsemi fyrirtækisins og framkvæmdir sem unnið er að á vegum þess. Má þar til dæmis nefna framkvæmdirnar við fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað en þar er unnið að uppsetningu á tvískiptri verksmiðju, annars vegar lítilli sem fyrst og fremst er hugsuð til að vinna afskurð og þann fisk sem flokkast frá í fiskiðjuverinu og hins vegar stórri og afkastamikilli verksmiðju. Litla verksmiðjan á að afkasta 380 tonnum á sólarhring en sú stóra mun afkasta 2.000 tonnum. Gert er ráð fyrir að litla verksmiðjan muni nýtast vel til ýmissa þróunarverkefna en áhersla verður lögð á vinnslu verðmætari afurða en hingað til hafa verið framleiddar í fiskimjölsverksmiðjum. Auk þess að fræðast á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar gátu gestir gætt sér á fjölbreyttum síldarréttum og ekta íslenskum harðfiski.

Verkmenntaskóli Austurlands á heiður skilinn fyrir að efna til tæknidags með jafn myndarlegum hætti og raun ber vitni.