Tæknidagur fjölskyldunnar var fjölsóttur. Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan tók þátt í Tæknideginum og bauð meðal annars upp á góðar veitingar. Ljósm. Smári Geirsson

Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmanntaskóla Austurlands í Neskaupstað í níunda sinn sl. laugardag og tókst vel í alla staði. Dagurinn var fjölsóttur og kom fólk víða að. Dagskráin var fjölbreytt og má segja að höfðað hafi verið til allra aldurshópa. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka kynntu starfsemi sína á Tæknideginum og gátu gestir fengið margvíslegar upplýsingar um starfsemi þeirra. Staðreyndin er sú að Tæknidagurinn er spennandi fyrir fólk á öllum aldri og með hin fjölbreytilegustu áhugamál. Á Tæknideginum kynnir Verkmanntaskóli Austurlands ávallt starfsemi sína og námsaðstöðu og það er svo sannarlega mikilvægt. Á meðal þess sem skólinn kynnti á þessum degi var skipstjórnarhermir.

Síldarvinnslan tók að sjálfsögðu þátt í Tæknideginum og kynnti þar starfsemi fyrirtækisins. Þá bauð fyrirtækið upp á veitingar og virtust gestir kunna vel að meta þær. Hægt var að gæða sér á brauði með mörgum tegundum af síld, makríl og reyktum þorski. Þá var boðið upp á kolmunnalýsi, bæði hálfunnið og fullunnið.

Verkmenntaskóli Austurlands á lof skilið fyrir fyrir að efna til Tæknidagsins. Þeir sem koma og njóta hans upplifa margt spennandi auk þess sem gestir geta fræðst um mikilvæga þætti austfirsks atvinnulífs.