Ánægðir gestir á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar. Ljósm. Smári GeirssonÁnægðir gestir á sýningarsvæði Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Smári Geirsson
 
Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað sl. laugardag. Dagurinn var mjög fjölsóttur og komu gestir víða að af Austurlandi. Fjölmörg fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir kynntu starfsemi sína á deginum og eins var starfsemi Verkmenntaskólans kynnt. Á deginum vígði t.d. menntamálaráðherra nýja suðuaðstöðu í málmdeild skólans. Eins var boðið upp á ýmislegt forvitnilegt fyrir ungu kynslóðina og má þar nefna að unnt var að upplifa himingeiminn og fylgjast með vélmennum keppa. Þá ber að nefna að gestum gafst kostur á að gæða sér á sælgæti úr hafinu og voru síldarréttir þar helst á dagskrá.
 
Mikill fjöldi gesta heimsótti sýningu Síldarvinnslunnar á Tæknideginum. Ljósm. Smári GeirssonMikill fjöldi gesta heimsótti sýningu
Síldarvinnslunnar á Tæknideginum.
Ljósm. Smári Geirsson
Síldarvinnslan var að sjálfsögðu með sýningarsvæði á deginum og var lögð áhersla á að fræða gesti um starfsemi fyrirtækisins bæði á sjó og landi. Sýningarsvæði Síldarvinnslunnar var fjölsótt og kom fram í spjalli við gestina að þeim þótti Tæknidagurinn frábær og fannst hann lofsvert framtak hjá Verkmenntaskólanum og Austurbrú. 
 
Tæknidagur fjölskyldunnar virðist vera búinn að festa sig rækilega í sessi og fer gestum dagsins fjölgandi frá ári til árs. Mjög vel er að deginum staðið og geta allir aflað sér mikillar þekkingar á austfirku samfélagi með því að sækja hann.