Börkur NK að dæla makríl yfir í Börk II NK í Smugunni. Ljósm. Haraldur Egilsson

Yfirstandandi makrílvertíð fór vel af stað þó lítið veiddist innan íslenskrar lögsögu. Skipin fengu ágætan afla í Síldarsmugunni og vinnsla var samfelld. Að undanförnu hafa veiðarnar hins vegar gengið hægar; skipin leita víða í Smugunni en aflinn er misjafn. Einstaka sinnum koma aflaskot en þau standa yfirleitt stutt enda allur flotinn brátt kominn á þann blett sem veitt er á. Þrátt fyrir þetta er engin ástæða til að fyllast svartsýni. Ágústmánuður er nýhafinn og undanfarin ár hefur makrílveiði í Smugunni gjarnan hafist um þetta leyti. Ef tekið er mið af reynslu fyrri ára ætti aðalveiðitíminn í Smugunni að vera eftir og vonandi á veiðin eftir að glæðast.

Beitir NK kom til Neskaupstaðar úr Smugunni sl. laugardag með 1210 tonn af stórum og fallegum makríl. Vel gengur að vinna fiskinn í fiskiðjuverinu og er hann ýmist heilfrystur, hausaður eða flakaður. Börkur II NK er síðan á landleið með 1040 tonn og kemur til Neskaupstaðar síðar í dag. Að afla Barkar II meðtöldum verða komin tæplega 18.000 tonn af makríl til Neskaupstaðar á vertíðinni.

Á vertíðinni hafa þau fimm skip, sem landa makríl hjá Síldarvinnslunni, haft samstarf um veiðarnar rétt eins og á síðustu vertíð. Felst samstarfið í því að afla allra skipanna er dælt um borð í eitt þeirra hverju sinni. Þetta fyrirkomulag kemur í veg fyrir að skipin séu að sigla langan veg með lítinn afla og eins tryggir það að aflinn berst ávallt sem ferskastur að landi. Fleiri útgerðarfyrirtæki hafa nú tekið upp samstarf af þessu tagi enda hafa aðstæðurnar mælt með að það sé gert; löng sigling til og frá miðunum og takmörkuð veiði.

Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að vissulega hefðu makrílveiðarnar mátt ganga betur að undanförnu en varla sé hægt að kvarta mikið þegar hátt í 18.000 tonn séu komin á land miðað við að alla vertíðina í fyrra hafi verið unnin um 23.000 tonn hjá fyrirtækinu.