Kolmunnaaflinn í janúar hefur verið góður. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Kolmunnaveiði suður af Færeyjum hefur verið góð nú í janúarmánuði. Síldarvinnslan hefur tekið á móti 29.440 tonnum af kolmunna í mánuðinum ef með eru talin 1.720 tonn sem Beitir NK er að landa í Neskaupstað í dag. Verksmiðjan í Neskaupstað hefur tekið á móti 16.490 tonnum í mánuðinum og verksmiðjan á Seyðisfirði hefur tekið á móti 12.950 tonnum. Að auki hefur 3.550 tonnum af loðnu verið landað í verksmiðjuna í Neskaupstað nú í janúar fyrir utan þá loðnu sem verksmiðjan hefur tekið á móti frá fiskiðjuveri fyrirtækisins.

Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar, segir að þessi janúarmánuður hafi verið fínasta start á árinu. „Nú bíða menn bara eftir endanlegri niðurstöðu varðandi loðnukvóta. Ég held að menn séu bara bjartsýnir,“ segir Hafþór.