DSC04141 2

Beitir NK siglir inn Norðfjarðarflóa með kolmunnafarm. Ljósm: Smári Geirsson                

Kolmunnavertíðinni hjá Síldarvinnslunni lauk í síðustu viku en Beitir NK var síðasta skipið til að koma með afla til löndunar. Alls hefur rúmlega 25.000 tonnum af kolmunna verið landað á Seyðisfirði frá áramótum og tæplega 40.000 tonnum í Neskaupstað. Gunnar Sverrisson rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar segir að kolmunninn á vertíðinni hafi verið ágætt hráefni. „Megnið af aflanum hefur verið vel kælt um borð í skipunum og það eykur gæði hráefnisins og auðveldar vinnsluna,“ segir Gunnar.

                Síldarvinnsluskipin, Beitir og Börkur, hafa aflað vel á vertíðinni en veiðin hefur farið fram í færeysku lögsögunni. Sömu sögu er að segja af öðrum skipum sem landað hafa kolmunnaafla í fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Eftirtalin skip lönduðu kolmunnaafla í fiskimjölsverksmiðjurnar á vertíðinni:

Beitir NK 18.749 tonn

Börkur NK 18.818 tonn

Bjarni Ólafsson AK 7.945 tonn

Vilhelm Þorsteinsson EA 7.735 tonn

Hákon EA 7.662 tonn

Norderveg (norskt skip) 2.405 tonn

                Að sögn Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki var nýliðin kolmunnavertíð afar góð. „Þessi vertíð var til dæmis mun betri en vertíðir síðustu ára. Segja má að vertíðin hafi gengið vel  frá því að veiðar hófust í apríl og þar til þeim lauk í síðustu viku. Dálítið var þó farið að tregast þegar við vorum í síðasta túr. Ég held að allir séu afar sáttir við þessa vertíð, hún var í raun hin fínasta,“ sagði Hjörvar.