Hópurinn úti að borðaStarfsmannafélag bræðslunnar á Seyðisfirði, fór í viku afslöppunarferð til Algarve í Portugal 19-26.sept.s.l. Gist var á AlagoaMar hótelinu, passlega stórt og að öllu leyti þægilegt, stutt að ganga í “gamla bæinn” og á “Laugaveginn”. Veðrið var sérlega gott allan tímann, +26-30°C og heiðskýrt, og fannst sumum nóg um hitann. Meðan sumir flatmöguðu í sólinni í garðinum, fóru aðrir í búðarráp, gönguferðir, á ströndina, sígaunamarkað eða tóku sér hringtúr með “lestinni”.
Mathákarnir fundu alltaf góða veitingastaði, sem nóg var af og verð sérlega hagstætt. Einnig vakti athygli öll “ríkin”, sem virðast hafa sprottið upp, gagngert til að þjóna Íslendingum. Yngra fólkið stundaði diskotekin grimmt, nýtti tímann vel, enda mjög erfitt að standast allar þær “freistingar" sem í boði voru. Haft var að orði, þegar heim var komið, (í kuldann) að betra hefði verið að framlengja ferðina um viku, sem sagt ógleymanleg ferð.