Fyrr í þessum mánuði hjóluðu 29 hjólreiðamenn um landið undir merki Team Rynkeby og fylgdu þeim 11 aðstoðarmenn. Team Rynkeby er alþjóðlegur hópur hjólreiðafólks sem hjólar árlega til styrktar langveikum börnum. Hópurinn skiptist upp í mörg lið og var Team Rynkeby lið stofnað á Íslandi árið 2017. Hefð er fyrir því að Team Rynkeby liðin hjóli árlega frá Danmörku til Parísar en vegna kórónufaraldursins var það ekki gert í ár. Í stað Parísarferðarinnar hjólaði íslenska liðið um Ísland og var alls hjólað um 850 km í öllum landshlutum. Alls staðar þar sem hópurinn fór vakti hann mikla athygli en að meðaltali voru hjólaðir um 100 km á degi hverjum.

Unnt er að heita á Team Rynkeby með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer: 907-1601 kr. 1.500 – 907-1602 kr. 3.000 og 907-1603 kr. 5.000. Munu öll áheitin renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Síldarvinnslan styrkti þetta góða málefni myndarlega og í þakklætisskyni voru meðfylgjandi myndir sendar, en þær voru teknar í Neskaupstað 9. júlí sl.