Ísfisktogarinn Bergey VE kom til löndunar í Vestmannaeyjum í morgun. Aflinn er um 75 tonn eða fullfermi og er hann blandaður; karfi, þorskur, ufsi og ýsa. Veiðiferðin hófst sl. fimmtudag en þá hafði skipið lokið löndun í Hafnarfirði. Heimasíðan ræddi við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra og spurði fyrst út í veðurlagið í veiðiferðinni. „Það eina sem má segja að hafi verið stöðugt í þessari veiðiferð var brælan. Það var bræla allan tímann en við vorum á Vestfjarðamiðum. Við fórum víða og reyndum fyrir okkur. Við vorum til dæmis á Halanum og á Strandagrunni en enduðum í Nætursölunni þar sem fékkst karfi. Það voru smáskot hér og þar en svo kláraðist það og þá var leitað annað. Þó svo að veðrið hafi verið leiðinlegt gátum við þó alltaf verið að. Nú verður landað í dag og síðan haldið til veiða á ný á morgun. Ég geri ráð fyrir að þá verði farið austur fyrir,“ segir Ragnar.