Bergur VE. Ljósm. Arnar Richardsson

Ísfisktogarinn Bergur VE er að landa fullfermi í Vestmannaeyjum í dag en hann landaði einnig fullfermi sl. miðvikudag. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst hvað hefði verið veitt. „Þetta var þorskur og ýsa í báðum túrum. Í fyrri túrnum tókum við þorskinn á Ingólfshöfða og ýsuna á Papagrunni en í seinni túrnum var þorskurinn tekinn á Víkinni og ýsan aftur á Papagrunni. Þorskurinn sem fæst er virkilega vænn og flottur og ýsan sem fæst þarna fyrir austan er að éta þar síldarhrogn og þá er ósköp auðvelt að ná henni. Veðrið hefur verið ágætt að undanförnu en nú í síðasta túr var kaldadrulla á leiðinni austur. Nú erum við komnir í þjóðhátíðarstopp og það verður ekki haldið til veiða á ný fyrr en eftir viku. Menn munu örugglega skemmta sér vel þessa þjóðhátíðardaga og mæta ferskir um borð fyrir næsta túr. Annars má segja að hjá okkur gangi veiðin bara eins og smurð vél og það er fátt hægt að segja nema góðar fréttir,“ segir Jón.