Vestmannaey VE úti fyrir suðurströndinni. Ljósm. Björn Steinbekk

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í hádeginu á miðvikudag að lokinni veiðiferð. Skipið var með fullfermi eða rúmlega 70 tonn og var landað úr því strax eftir að í land var komið. Heimasíðan spurði Birgi Þór Sverrisson skipstjóra hvernig túrinn hefði verið. „Þessi túr var ljómandi góður. Við byrjuðum á að taka tvö hol á Pétursey en síðan var keyrt austur á Höfða þar sem tekin voru þrjú hol. Síðan kláruðum við með þremur holum á Mýragrunni. Aflinn er þorskur og ýsa til helminga en ufsinn lét ekki sjá sig frekar en áður. Staðreyndin er sú að þetta er búið að vera gott sumar og góð fiskgengd á hefðbundin mið. Það hefur reyndar verið svolítið langt að ná í ýsuna en hún hefur haldið sig austarlega. Hér við Eyjarnar hefur til dæmis fiskast vel af steinbít, kola og löngu og þorskurinn fæst víða. Fiskurinn er búinn að vera vænn og jafn í allt sumar og það virðist vera gott ástand í sjónum. Það eina sem vantar er ufsinn. Allir túrar að undanförnu hafa verið nánast eins, það hefur verið veitt á sömu stöðum og allt verið tiltölulega þægilegt. Hins vegar hefur ekki verið mikið sumarveður og við höfum fengið hressilegar brælur. Nú þurfum við að stoppa í mánuð vegna kvótastöðu. Það eru fleiri en strandveiðisjómenn sem þurfa að stoppa. Þetta verður fjögurra vikna stopp. Bergur VE er nú að klára mánaðarstopp og hann mun halda til veiða í dag,“ segir Birgir Þór.