Undanfarna dag hefur loðnuveiðin gengið misjafnlega en hún mjakast eins og oft er sagt. Enn er einungis um dagveiði að ræða og eru öll skipin yfirleitt að toga á litlum bletti þannig að það er þröng á þingi. Í gær vor þau skip sem fengu mest með rúmlega 500 tonn en aflinn var allt niður í um 200 tonn. Það virðist vera misjafnt hvernig skipin hitta á torfurnar og eins hefur gerð veiðarfæranna án efa einhver áhrif á árangurinn. Heimasíðan heyrði í Þorkeli Péturssyni skipstjóra á Bjarna Ólafssyni og bað hann um að lýsa aðstæðunum á miðunum. „Allur flotinn er hérna 50-60 mílur norðaustur af Langanesi. Við höfum ekki fundið mjög sterk lóð. Þetta eru svona grisjur sem menn eru að kasta í. Það er þó dálítið misjafnt hve lóðið er sterkt og gærdagurinn var þokkalegur að því leyti enda fengu bæði Börkur og Beitir yfir 500 tonn í gær en aðrir minna. Mest hafa skip verið að fá upp í 600 tonn yfir daginn. Menn hafa bara sex tíma til að draga með einhverjum árangri á hverjum degi. Þetta fer að skila einhverju um klukkan hálftíu til tíu á morgnana en svo er það búið um hálffjögur eða fjögur á daginn. Eftir það fæst varla nokkuð. Loðnan er býsna brellin og getur verið erfitt við hana að eiga. Menn verða að finna lóð og vera tilbúnir að kasta á morgnana. Það er þröngt um skipin á blettinum sem veitt er á og skipin reyna að stilla sér upp í röð en það vill verða svo að menn þvælast hver fyrir öðrum. Það leggja sig allir fram við þessar aðstæður en þetta er svolítið snúið og það mætti vera meira veiðifjör. Það er alveg ljóst að megingöngurnar eiga eftir að koma og þá mun fjörið færast í leikinn. Annars ætla ég ekki að kvarta. Það skemmtilegasta sem ég geri er að veiða loðnu og menn eiga að vera glaðir að fá tækifæri til þess,“ segir Þorkell.