Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að nú að undanförnu hafi þeir á Bjarti lagt aukna áherslu á þorskveiðar en dregið úr veiðum á ufsa sem áður var verulegur hluti aflans. Þá er ýsa einungis meðafli.
Að sögn Steinþórs eru túrarnir hjá Bjarti yfirleitt 3-4 dagar, haldið til veiða á fimmtudegi og komið að landi á þriðjudegi. Helst má þorskurinn þó ekki vera eldri en þriggja daga gamall þegar að landi er komið.
Steinþór segir að það sé auðvelt að ná í þorskinn og að undanförnu hafi verið bingur af þorski á Hvalbakshalli og upp á Breiðdalsgrunn. Þarna er svo mikill fiskur að nauðsynlegt er að sýna aðgæslu svo ekki komi allt of mikið í veiðarfærið. Fiskurinn á þessum slóðum er góður millifiskur sem hentar ágætlega til vinnslu. Algeng þyngd á fiskinum er 2-2,5 kg.