Frá afhendingu edrúverðlaunanna. Talið frá vinstri: Birkir Dan Ólafsson, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Enóla Ósk Gunnarsdóttir. Ljósm. Hákon ErnusonFrá afhendingu edrúverðlaunanna. Talið frá vinstri: Birkir Dan Ólafsson, Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Enóla Ósk Gunnarsdóttir. Ljósm. Hákon ErnusonÍ Verkmenntaskóla Austurlands er lögð mikil áhersla á heilbrigða lífshætti og þar er rekin virk forvarnarstefna sem hefur mótandi áhrif á skólalífið. Í stefnunni er kveðið á um að félagslíf nemenda og viðburðir á vegum skólans skuli taka mið af heilbrigði og sama skuli gilda um ferðalög á vegum skólans. Að sjálfsögðu er síðan meðferð áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í skólanum og á lóð hans.
 
Árið 2010 færði Síldarvinnslan skólanum áfengismæli að gjöf. Þegar var tekin ákvörðun um að nota mælinn með jákvæðum hætti og verðlauna þá nemendur sem fylgdu skólareglum og skemmtu sér án þess að neyta áfengra drykkja. Í tengslum við notkun áfengismælisins var ákveðið að á dansleikjum og ferðalögum á vegum skólans yrði nemendum gefinn kostur á að blása í mælinn og fá nafn sitt í svonefndan edrúpott. Síðar eru svo nöfn nemenda dregin úr pottinum og fá hinir heppnu vegleg verðlaun. Foreldrafélag skólans hefur stutt þetta forvarnarverkefni dyggilega og þá hafa fyrirtæki lagt til verðlaun fyrir þá sem dregnir eru úr pottinum. Edrúpotturinn er því hugsaður til að hvetja nemendur til að fylgja skólareglum og skemmta sér án áfengis.
 
Haustið 2014 var síðan stofnað Edrúfélag í skólanum og eru félagsmenn um 40 talsins um þessar mundir. Er félagsmönnum hyglað með því að draga sérstaklega úr nöfnum þeirra þegar dráttur úr edrúpotti fer fram.
 
Helgina 30. október – 1. nóvember fóru 60 nemendur Verkmenntaskólans í menningarferð norður í land og fengu þeir allir nöfn sín í edrúpottinn þannig að þar var ekkert áfengi með í för. Að ferð lokinni var nafn dregið úr hinum svonefnda stóra potti og eins úr pottinum sem hafði að geyma nöfn félaga í Edrúfélaginu.  Úr stóra pottinum var dregið nafn Enólu Óskar Gunnarsdóttur og upp úr Edrúfélagspottinum kom nafn Birkis Dans Ólafssonar. Þessir nemendur fengu síðan afhent verðlaun sín í gær. Enóla fékk Sennheiser heyrnartól af bestu gerð sem Síldarvinnslan gaf en Birkir fékk heilsuúr (Fitbit) sem Síminn gaf. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem afhenti verðlaunin.
 
Gunnþór sagði við þetta tækifæri að það væri einkar ánægjulegt fyrir fyrirtækið að taka þátt í að stuðla að heilbrigðu félagslífi nemenda skólans og það væri ekki síður ánægjulegt hve skólinn væri að ná frábærum árangri á þessu sviði með samstilltu átaki starfsmanna, nemenda og Foreldrafélags. Salóme Harðardóttir forvarnarfulltrúi skólans segir afar gleðilegt hve forvarnarvinnan gengur vel. Hún segir að nemendur sækist eftir því að afloknum samkomum eða ferðalögum á vegum skólans að vera í edrúpottinum. „Það er sem betur fer liðin tíð að það sé hallærislegt að vera edrú,“ sagði Salóme.