BO april 2018 HE

Bjarni Ólafsson AK. Ljósm: Hákon Ernuson

                Það hefur hægst mikið á makrílveiðinni í Smugunni og nú eru skipin að leita í bölvuðum kalda. Lokið var við að landa 800 tonnum úr Bjarna Ólafssyni AK í Neskaupstað í gær og í gærkvöldi kom Börkur NK með 860 tonn sem verið er að vinna. Þá er Hákon EA að landa fullfermi af frosnum makríl.

                Að löndun lokinni lét Bjarni Ólafsson úr höfn og var honum ætlað að veiða síld austur af landinu. Þær fréttir bárust síðan í morgun að skipið hefði tekið eitt stutt hol og fengið hvorki meira né minna en 800 tonn. Heimasíðan hafði samband við Gísla Runólfsson skipstjóra og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist. „Við fengum þetta norðan í Glettinganesgrunni og það var einungis dregið í rúman klukkutíma. Það er óhemja af síld hérna. Þetta hol gaf 800 tonn og ég man ekki eftir því að hafa fengið svona mikið í holi þegar dregið er í svona stuttan tíma. Þetta hol var fyrsta holið með nýju trolli frá Hampiðjunni og það reyndist svo sannarlega vel. Þetta er stór og falleg síld og hún ætti að henta ágætlega til vinnslu. Við þetta bætist að veiðisvæðið er einungis í þriggja klukkustunda siglingarfjarlægð frá Norðfirði. Þetta getur ekki verið betra. Við fréttum líka af síld norðar og segja má að þetta sé hefðbundið síldarsvæði á haustin. Við erum lagðir af stað til Neskaupstaðar og verðum þar um tvöleytið,“ segir Gísli.