Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri afhendir þeim Smára Birni Gunnarssyni og Júlíusi Óla Jakobsen glæsileg verðlaun en nöfn þeirra voru dregin úr edrúpotti eftir árshátíð nemendafélags VA. Ljósm. Hákon ErnusonGunnþór Ingvason framkvæmdastjóri afhendir þeim Smára Birni Gunnarssyni og Júlíusi Óla Jakobsen glæsileg verðlaun en nöfn þeirra voru dregin úr edrúpotti eftir árshátíð nemendafélags VA. Ljósm. Hákon ErnusonÍ Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað er rekin virk forvarnarstefna. Í stefnunni er kveðið á um að félagslíf nemenda og viðburðir á vegum skólans eigi að einkennast af heilbrigðum lífsháttum og sama eigi að gilda um ferðalög nemenda. Að sjálfsögðu er meðferð áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í skólanum og á lóð hans.
 
Árið 2010 fékk Verkmenntaskólinn áfengismæli að gjöf frá Síldarvinnslunni og var þegar tekin ákvörðun um að mælirinn yrði fyrst og fremst notaður með jákvæðum hætti til að verðlauna þá nemendur sem fylgdu skólareglum og til að hvetja þá til að skemmta sér án þess að neyta áfengis. Í tengslum við notkun áfengismælisins var ákveðið að á dansleikjum og ferðalögum á vegum skólans yrði nemendum gefinn kostur á að blása í mælinn og fá nafn sitt í svonefndan edrúpott. Síðar eru svo nöfn dregin úr edrúpottinum og fá hinir heppnu vegleg verðlaun. Foreldrafélag skólans hefur stutt þetta forvarnarverkefni með ráðum og dáð og eins hafa fyrirtæki lagt til verðlaun fyrir þá sem hafa verið dregnir úr pottinum. Edrúpotturinn er því hugsaður til að hvetja nemendur til að fylgja skólareglum til hins ítrasta og gera það eftirsóknarvert að vera edrú.
 
Haustið 2014 var síðan stofnað Edrúfélag í Verkmenntaskólanum. Um þessar mundir eru á þriðja tug nemenda í félaginu og hittast félagsmenn gjarnan og skemmta sér saman. Þá hyglar skólinn félagsmönnum með því að draga sérstaklega úr nöfnum þeirra þegar dráttur úr edrúpotti á sér stað.
 
Hinn 22. apríl sl. hélt nemendafélag verkmenntaskólans (NIVA) árshátíð sína með glæsibrag. Eins og venjulega áttu nemendur kost á að blása í áfengismælinn á árshátíðinni og komast þannig í edrúpottinn. Fyrir tilstuðlan Foreldrafélags skólans ákvað Síldarvinnslan að gefa vinninga sem þeir hlytu sem dregnir yrðu úr pottinum. Pottarnir voru reyndar tveir; annars vegar pottur þeirra sem voru í Edrúfélaginu og hins vegar pottur fyrir alla þá sem blésu í áfengismælinn. Þannig höfðu félagar í Edrúfélaginu meiri möguleika en aðrir til að hljóta verðlaun. Miðvikudaginn 29. apríl fór dráttur fram og vildi svo til að báðir nemendurnir sem hlutu verðlaun eru virkir í Edrúfélaginu. Nafn Smára Björns Gunnarssonar var dregið úr Edrúfélagspottinum og nafn Júlíusar Óla Jakobsen úr stóra pottinum. Smári hlaut í verðlaun gæðahátalara frá Bose og Júlíus Sennheiser- heyrnatól af bestu gerð.
 
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar afhenti þeim Smára Birni og Júlíusi Óla verðlaunin í dag og sagði að því tilefni að Síldarvinnslan væri  stolt af því að styðja við bakið á heilbrigðu félagslífi í Verkmenntaskólanum. Þeir Smári og Júlíus sögðu að það borgaði sig svo sannarlega að komast í edrúpottinn og rómuðu gott og göfugt starf Edrúfélagsins. „Við viljum hvetja nemendur VA til að ganga í félagið og taka upp áfengis- og vímuefnalausan lífsstíl. Það þykir ekkert sérstaklega eftirsóknarvert á meðal ungs fólks að neyta vímuefna, þvert á móti finnst mörgum töff að vera edrú,“ sögðu þeir Smári Björn og Júlíus Óli að lokum.