Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gær og var aflinn 110 tonn. Uppistaða aflans var þorskur. Heimasíðan sló á þráðinn til Þórhalls Jónssonar skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið: „Við vorum fyrir norðan á Rifsbankanum og það var kolvitlaust veður. Það var á mörkunum að hægt væri að vera að. Hins vegar var nægan fisk að fá og þetta var fínn fiskur. Túrinn tók þrjá sólarhringa höfn í höfn og við vorum einungis tvo sólarhringa á veiðum. Það er búin að vera rysjótt tíð frá áramótum en það hefur fiskast þokkalega engu að síður. Janúaraflinn hjá okkur var um 480 tonn og það er allt í lagi. Lægðirnar halda áfram að koma og við ætluðum út í gærkvöldi en brottför var frestað til dagsins í dag vegna veðurs. Tíðarfarið hlýtur að fara að skána,“ sagði Þórhallur.