Línubátur og strandveiðibátur að landa í Norðfjarðarhöfn. Ljósm. Smári GeirssonLínubátur og strandveiðibátur að landa í Norðfjarðarhöfn.
Ljósm. Smári Geirsson
Um þessar mundir róa fimm línubátar frá Neskaupstað og hafa verið að afla vel. Allt eru þetta aðkomubátar og hafa sumir þeirra komið á hverju vori undanfarin ár. Rúnar Óli Birgisson starfsmaður Norðfjarðarhafnar segir að fyrsti báturinn hafi hafið róðra í lok maí þetta árið. „Nú róa héðan fimm línubátar og það á eftir að bætast í þann flota. Í fyrra voru þessir bátar 11 talsins seinni hluta sumars. Bátarnir eru farnir að koma fyrr á vorin og fara seinna en áður þannig að allt bendir til að héðan sé gott að gera þá út stóran hluta ársins. Í fyrra hætti síðasti línubáturinn róðrum héðan í desember. Bátarnir sem róa héðan fast núna koma frá Hornafirði, Fáskrúðsfirði og Suðurnesjum. Stærsti báturinn landaði hér 25 tonnum tvo daga í röð í síðustu viku og algengt er að minni bátarnir séu að koma með 8-10 tonn að landi. Þetta eru aflatölur fyrir endurvigtun,“ segir Rúnar Óli.
 
Þegar spurt er um afla strandveiðibáta fást svipuð svör hvað afla varðar; aflinn hefur verið góður frá því í maí. Samkvæmt upplýsingum frá Norðfjarðarhöfn róa nú 10 strandveiðibátar frá Neskaupstað, þar af er einn bátur frá Eskifirði og annar frá Fáskrúðsfirði. Mun strandveiðibátunum væntanlega eiga eftir að fjölga verulega þegar kemur lengra fram á sumarið.