Börkur NK. Ljósm. Þórhildur Eir SigurgeirsdóttirBörkur NK hélt út til loðnuleitar sl. þriðjudagskvöld og kom að landi í gær. Hann leitaði með fjórum öðrum skipum austur í hafi og norður fyrir Langanes og síðan nær landi ásamt Bjarna Ólafssyni AK. Leitin var árangurslaus. Heimasíðan hafði samband við Sigurberg Hauksson skipstjóra á Berki og spurði hann nánar út í þessa leit og hvernig honum litist á framhaldið: „Í þessari leit tóku þátt fimm skip, auk Barkar voru það Bjarni Ólafsson, Polar Amaroq, Faxi og Ingunn. Skipin röðuðu sér upp með 5-6 mílna millibili og leituðu í hafinu út af Austfjörðum og norður fyrir Langanes án árangurs. Að þessari leit lokinni könnuðum við á Berki ásamt Bjarna Ólafssyni grunninn en ekkert fannst þar heldur. Eins og fram hefur komið í fréttum liggur leitarskip Hafrannsóknastofnunar á Akureyri og hyggst bíða með frekari leit. Það eru afskaplega fá skip á þessari slóð núna en þegar við fórum í land voru ein 3 norsk skip komin til veiða og fleiri voru á leiðinni.

Það hefur gerst áður að loðnan hafi látið bíða eftir sér og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Sennilegt er að menn bíði nú í nokkra daga og haldi síðan til leitar og ef ekkert finnst út af Austfjörðum verður líklega leitað norður af Sléttu og vestur fyrir Kolbeinsey .“