Vestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonVestmannaey VE. Ljósm. Guðmundur AlfreðssonÍsfisktogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE héldu til veiða á föstudag og lönduðu síðan fullfermi í Eyjum á sunnudag. Aflinn fékkst sunnan við Háfadýpið og var blandaður; þorskur, ýsa og ufsi. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson, skipstjóra á Vestmannaey og spurði hvort nú ríkti hinn eini sanni vertíðarbragur. „Það er fín veiði, en okkur finnst ekki enn komin alvöruvertíð. Það er hægt að fá góðan afla en það er ekki eins mikið af fiski og oft áður á þessum árstíma. Hann er líklega bara heldur seinna á ferðinni og það er fyrst núna sem sést eitthvað af ýsu og ufsa. Annars eru þetta skrýtnir tímar og við leggjum alla áherslu á að veiða tegundir sem unnt er að flaka og frysta hér heima. Menn forðast til dæmis karfann. Það er hægt að segja að það vanti „power“ í veiðarnar og menn bíða og sjá hvaða áhrif covid 19 hefur til dæmis á breska markaðinn. Þetta eru óvissutímar,“ segir Birgir Þór.