Hvalir valda vandræðum á loðnumiðunum. Myndin er tekin um borð í Polar Amaroq. Ljósm. Geir Zoëga

Grænlenska loðnuskipið Polar Amaroq er að landa fullfermi eða 2.300 tonnum af loðnu í Fuglafirði í Færeyjum. Löndunarbið er í Fuglafirði og þurfti Polar Amaroq að bíða þar í rúmlega sólarhring áður en löndun gat hafist. Aflann fékk skipið í þremur köstum á Faxaflóa. Í fyrsta kastinu voru 300 tonn , síðan kom 1.300 tonna kast og lokakastið var hvorki meira né minna en 1.700 tonn. Geir Zoёga skipstjóri segir að lokakastið hafi verið hið stærsta á hans skipstjóraferli. „Við þurftum að gefa öðrum skipum drjúgan hluta aflans í síðasta kastinu,“ segir Geir.

Geir segir að loðnuvertíðin hafi verið afskaplega góð til þessa. Mikið sé að sjá af loðnu og loðnan sem veiðist hin fallegasta. Það er þó eitt sem skyggir á vertíðina og það er hinn mikli fjöldi hvala á miðunum. „Fjöldi hnúfubaka á loðnumiðunum er mjög mikill eins og hefur reyndar oft verið áður á undanförnum vertíðum. Þeir eru ekkert hræddir við skipin og veiðarfærin. Á þessari vertíð liggja þeir við nótina og þegar loðna fer yfir nótarteininn koma þeir og éta af bestu lyst. Þetta hef ég ekki séð áður. Hvalirnir virðast stöðugt verða frakkari. Loðnuskipin hafa oft verið í vandræðum að kasta vegna hvalanna og ekki er óalgengt að þau fái hvali í nótina. Þegar það gerist þá fer það illa eða mjög illa. Næturnar skemmast gjarnan mikið og það þýðir að viðkomandi skip tefst frá veiðum og heilmikill viðgerðarkostnaður leggst á útgerðina. Það er umhugsunarefni hvað er orðið mikið um hnúfubak og þetta hefur verið svona alla vertíðina. Hvalurinn fylgir loðnunni eins og skugginn – þar sem er loðna þar eru hvalir og þar sem eru hvalir þar er loðna. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki sé unnt að merkja allmikinn fjölda hnúfubaka og fylgjast með þeim því þeir eru í loðnunni og munu vísa mönnum á hana. Þegar var bræla fyrir vestan land á dögunum náðum við góðum afla í Meðallandsbugt og það var einfaldlega hvalablástur sem vísaði okkur á þá loðnu. Auðvitað er líka gaman að fylgjast með hvölunum en fjölgun þeirra hlýtur að vera umhugsunarefni og hún er áhyggjuefni fyrir loðnusjómenn og útgerðir loðnuskipa,“ segir Geir.