Síld söltuð á söltunarstöðinni Sólbrekku í Mjóafirði sumarið 1965.Síld söltuð á söltunarstöðinni Sólbrekku í
Mjóafirði sumarið 1965.
Hinn 24. mars árið 1965 var hlutafélagið Sólbrekka stofnað. Tilgangur félagsins var að koma á fót síldarsöltunarstöð og hefja síldarsöltun í Mjóafirði eystra. Hluthafarnir í félaginu voru Þórður Óskarsson, skipstjóri á Sólfara AK, Björn J. Björnsson og Gunnar Ólafsson, en þeir voru allir frá Akranesi. Þá átti Dýrleif Hallgrímsdóttir, eiginkona Gunnars, hlut í félaginu og einnig Vilhjálmur Hjálmarsson á Brekku í Mjóafirði.
 
Bryggjan á Brekku var lagfærð og endurbætt og  kom  félagið þar upp myndarlegri söltunarstöð. Ráðast þurfti í ýmsar framkvæmdir og meðal annars var reistur íbúðarbraggi fyrir starfsfólk. Söltun hófst síðan sumarið 1965 og var saltað á stöðinni í fjögur sumur. Árið 1965 var saltað í 5.490 tunnur, árið 1966 í 7.580 tunnur, árið 1966 í 4.396 tunnur og árið 1968 í 4.092 tunnur.
 
Sólfari AK landar síld til söltunar. Myndin er líklega tekin í hádegishléi. Ljósm. Jón SkaptiSólfari AK landar síld til söltunar. Myndin er líklega tekin
í hádegishléi. 
Söltunarstöðin Sólbrekka var um margt einstök. Hún var eina stöðin á þessu síldveiðitímabili sem ekki var starfrækt í þéttbýli eða í næsta nágrenni þéttbýlis. Þá var engin síldarverksmiðja í Mjóafirði og því þurfti að flytja slóg og úrgangssíld til Neskaupstaðar þar sem síldarverksmiðja Síldarvinnslunnar tók við hráefninu. Fyrsta árið var slógið og úrgangssíldin  flutt á milli í landgöngupramma sem flóabáturinn dró. Eftir það voru þurrafúabátar notaðir til flutninganna en flóabáturinn dró þá einnig. Heimasíðan ræddi stuttlega við Gunnar Ólafsson, sem var einn eigenda Sólbrekku, og spurði hann fyrst hvort það hafi almennt þótt skynsamlegt að koma upp síldarsöltunarstöð í Mjóafirði. „Nei, blessaður vertu, mörgum þótti þetta arfavitlaust. Sumir sögðu að þetta væri það vitlausasta sem við gætum gert, því þarna væri ekkert fólk og engin síldarverksmiðja. Menn hristu endalaust hausinn yfir þessu en samt sem áður létum við af þessu verða. Þarna var byggður þrjátíu manna braggi, keyptar tvær rafstöðvar og allur búnaður á söltunarstöðina. Mjóafjarðarhreppur lagfærði bryggjuna og fékk olíutank sem nauðsynlegt var að hafa. Landgönguprammann til að flytja slóg og úrgangssíld til Neskaupstaðar fengum við vestur á fjörðum. Hann var einungis notaður fyrsta sumarið. Hann lak og ekki var talið forsvaranlegt að nota hann lengur. Eftir það notuðum við afskráða þurrafúabáta í flutningana sem flóabáturinn dró. Fyrst var það bátur sem hét Skíðblaðnir frá Vestmannaeyjum og síðan Hafnfirðingur frá Hafnarfirði. Pramminn er sérstaklega eftirminnilegur, en hann var yfirleitt kallaður“ Járnhausinn“ á meðan hann var í notkun eystra. Við áttum víst að skila prammanum aftur vestur en af því varð aldrei og hann er því enn í Mjóafirði. Slógið og úrgangssíldin fóru í verksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og við áttum afar gott samstarf við Norðfirðinga. Fyrst vorum við í sambandi við Hermann Lárusson framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar en síðasta árið hafði Ólafur Gunnarsson tekið við af honum. Hjá söltunarstöðinni var mest saltað úr Sólfara AK en eins komu Norðfjarðarbátar og lönduðu hjá okkur í töluverðum mæli. Starfsfólk kom víða að til starfa á stöðinni. Þarna störfuðu til dæmis Akurnesingar og Siglfirðingar og svo auðvitað einhverjir heimamenn. Það fól í sér mikla vinnu að láta þetta gerast en þessi tími var skemmtilegur og hann er afskaplega eftirminnilegur,“ segir Gunnar.
 
Flóabáturinn að draga landgönguprammann til Neskaupstaðar.Flóabáturinn að draga landgönguprammann
til Neskaupstaðar.
Allir sem heimsækja Mjóafjörð sjá merkisprammann sem einu sinni gegndi því hlutverki að flytja síld á milli fjarða og var kallaður „Járnhausinn“.  Pramminn liggur í fjörunni innarlega í firðinum norðanverðum rétt við þjóðveginn þar sem hann hægt og bítandi verður riði að bráð. Þess má einnig geta að bragginn sem Sólbrekkumenn reistu í Mjóafirði hefur gegnt mikilvægu hlutverki í byggðarlaginu eftir að síldin hvarf á braut. Hann hefur meðal annars verið notaður sem skóli og gistiheimili.
 
Myndirnar sem fylgja og teknar voru sumarið 1965 eru úr safni Jóns Skafta Kristjánssonar sem gegndi starfi vélstjóra á Sólfara AK á síldarárunum.
 
 Við bryggjuna sést landgöngupramminn hálffullur af slógi og úrgangssíld. Ljósm. Jón SkaptiVið bryggjuna sést landgöngupramminn hálffullur af
slógi og úrgangssíld. 
 Landgöngupramminn liggur nú í fjörunni innarlega í Mjóafirði norðanverðum. Ljósmynd fengin hjá FjarðabyggðLandgöngupramminn liggur nú í fjörunni innarlega í Mjóafirði norðanverðum. Ljósmynd fengin hjá Fjarðabyggð