Það var Síldarvinnslan í Neskaupstað sem festi kaup á fyrsta togaranum í eigu Íslendinga sem var með allan hefðbundinn skuttogarabúnað. Skipið var þriggja ára og var því gefið nafnið Barði. Stærð þess var liðlega 300 tonn. Barði var keyptur í Frakklandi og kom í fyrsta sinn til nýrrar heimahafnar í Neskaupstað þann 14. desember 1970. Áður en Barði kom til landsins höfðu allmiklar endurbætur verið gerðar á skipinu og eftir að það kom til nýrrar heimahafnar var því verki haldið áfram. Barði hélt síðan til veiða 11. febrúar 1971 og þá má segja að skuttogaraöld hafi hafist hér á landi.
Ekki voru allir sannfærðir um að skynsamlegt væri að hefja togaraútgerð frá Neskaupstað á ný en áratugur var liðinn frá því að síðasti síðutogarinn hafði verið gerður út þaðan. Þeir svartsýnu rifjuðu upp útgerðarsögu nýsköpunartogaranna Goðaness og Egils rauða ásamt sögu togarans Gerpis og töldu að erfitt yrði að gera út togara án hallareksturs og mikilla vandræða. Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar voru hins vegar bjartsýnir og höfðu tröllatrú á skuttogaraútgerð sem þeir töldu geta byggt að ýmsu leyti á öðrum forsendum en togaraútgerð fyrri tíma. Barða var til dæmis ætlað að fiska á heimamiðum og landa aflanum í heimahöfn til vinnslu í fiskvinnslustöð fyrirtækisins. Þá var skipinu einungis ætlað að fiska í ís og betri aðstaða til veiða og vinnu um borð gerði það að verkum að áhöfn myndi verða mun fámennari en á síðutogurum fyrri tíma. Hver veiðiferð átti að vera stutt og var skipinu ætlað að koma að landi með gott hráefni til vinnslu.
Í fyrstu gekk erfiðlega að manna Barða. Sjómenn höfðu ekki mikla trú á þessari togaraútgerð og kusu frekar að vera á bátum en togara. Upphaflega var stefnt að því að ráða einungis heimamenn á Barða en það gekk ekki eftir og því voru nokkrir aðkomumenn í fyrstu áhöfninni. Fljótlega breyttist hins vegar viðhorf norðfirskra sjómanna og þegar skuttogarinn hafði sannað sig urðu pláss á honum eftirsóknarverð. Þegar ljóst varð að aðbúnaður, vinnuaðstæður og laun voru betri en á gömlu síðutogurunum breyttist viðhorfið til skuttogarans. Í upphafi voru 15 manns í áhöfn Barða og var Magni Kristjánsson skipstjóri. Innan skamms var fjölgað um einn í áhöfninni og varð reglan brátt sú að 16 voru á skipinu.
Fljótlega eignuðust landsmenn fleiri skuttogara og alls voru gerð út þrjú slík skip frá landinu á árinu 1971. Á þessum tíma voru auk Barða keyptir skuttogarar til Eskifjarðar og Sauðárkróks. Útgerð Barða varð til þess að strax á árinu 1971 hóf stjórn Síldarvinnslunnar að kanna möguleikann á því að festa kaup á öðrum skuttogara.