Börkur að dæla síld og mikið líf að sjá – fuglar, háhyrningar og hnúfubakar. Ljósm. Atli Rúnar Eysteinsson

Börkur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gærmorgun eftir örstutta veiðiferð á síldarmiðin austur af landinu. Heimasíðan ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra og spurði nánar út í þessa stuttu veiðiferð. „Já, veiðiferðin tók einungis 12 tíma. Við fórum norður á Glettinganesflak og þar var mjög mikla síld að sjá og reyndar mikið líf. Við köstuðum og fórum rétt inn í lóðninguna og hífðum síðan. Við drógum í um það bil klukkutíma. Aflinn reyndist vera 872 tonn af stórri og fallegri síld og við héldum strax af stað í land með það. Þetta er óvenju stuttur túr og til marks um það þá sváfu þeir sem voru á frívakt af sér veiðina. Þeir vöknuðu ekki fyrr en við vorum komnir langleiðina í land. Auðvitað er þessi túr sérstakur en síldveiðin í haust hefur verið afskaplega þægileg. Síldin dvelur lengur hér upp við landið en síðustu ár og það er nóg af henni. Það er bæði þægilegt og ódýrt að gera út á veiðarnar við þessar aðstæður og fullyrða má að þetta sé með alþægilegustu vertíðum. Það er orðið lítið eftir af kvóta hjá okkur þannig að við sjáum orðið fyrir endann á vertíðinni,“ segir Hjörvar.