Polar Amaroq siglir inn Norðfjörð í gær. Ljósm. Hlynur SveinssonPolar Amaroq siglir inn Norðfjörð í gær.
Ljósm. Hlynur Sveinsson
Grænlenska skipið Polar Amaroq kom til Neskaupstaðar í gær með 1.800 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst á gráa svæðinu svonefnda á milli Færeyja og Skotlands. Í veiðiferð skipsins voru Poseidon hlerar í fyrsta sinn reyndir við uppsjávarveiðar og var Atli Jósafatsson hönnuður hleranna með í för. Þegar Polar Amaroq kom til hafnar fór tíðindamaður heimasíðunnar um borð og spurði Geir Zoëga skipstjóra hvernig hlerarnir hefðu reynst. „Þetta gekk afar vel og það fer ekkert á milli mála að þessir hlerar eru framtíðin. Tilkoma þeirra gerir allt auðveldara við togveiðarnar og með þeim er ávallt hægt að halda trollinu í hámarksveiðihæfni,“ segir Geir Zoëga.
 
Atli Jósafatsson upplýsti að þróun Poseidon hleranna hefði staðið yfir í sex ár og Rannís hefði styrkt þróunarverkefnið myndarlega. Hlerarnir eru tölvustýrðir og er það nýung. Tvisvar hefur minni útgáfa af hlerunum verið reynd á hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og einu sinni farið með þá í veiðiferð á Vestmannaey VE, en nú var stærri útgáfa reynd í fyrsta sinn við uppsjávarveiðar. Atli segir að veiðiferð Polar Amaroq með hlerana hafi gengið vel. Eitt vandamál kom upp á; tölvusamband við stjórnbúnað annars hlerans datt út en það er auðvelt að lagfæra. Annars segir Atli að hlerarnir hafi staðist allar væntingar; gott væri að kasta þeim, þeir gefi gott hlerabil og séu léttir í drætti. 
 
Poseidon hlerarnir hífðir um borð í Polar Amaroq. Ljósm. Hlynur SveinssonPoseidon hlerarnir hífðir um borð í Polar Amaroq.
Atli var beðinn um að lýsa hlerunum og hvernig þeir virkuðu. „Hlerunum er stjórnað með tölvu úr brú skipsins með því að vængir þeirra eru hreyfðir og sjóflæðinu í gegnum þá þannig stýrt. Á hlerunum eru sex vængir, þrír á efri hluta hlerans og þrír á neðri. Ef til dæmis allir vængirnir eru opnir fæst minnsta bil á milli hlera og opnunin á veiðarfærinu er þá í samræmi við það. Ef við færum hinsvegar vængina nær hver öðrum og minnkum þannig gegnumstreymið eykst bilið á milli hleranna og opnunin á veiðarfærinu verður meiri eða meira skver eins og sagt er. Hægt er að stjórna hverjum væng fyrir sig á hlerunum til dæmis með því að loka neðri vængjum hlerans en þá hallar hlerinn inn á við og hlerar og troll færast ofar í sjónum. Ef hins vegar efri hluta hleranna er lokað þá fara hlerar og troll neðar í sjónum. Þegar togað er á móti miklum straumi þá er hægt að draga úr krafti hleranna svo bilið á milli þeirra verður minna. Þegar beygt er á togi þá er unnt að draga úr krafti ytri hlerans og draga þannig úr álagi og snúa á skemmri tíma. Poseidon hlerarnir reyndust vel við kolmunnaveiðarnar í þessari veiðiferð en þeir henta einnig vel við botntrollsveiðar. Þá er unnt að halda hlerunum í ákveðinni fjarlægð frá botni og draga þannig úr viðnámi og sliti á hlerunum,“ segir Atli.
 
Poseidon hlerunum kastað á kolmunnamiðunum.Poseidon hlerunum kastað á kolmunnamiðunum.Atli segir að hann sé ákaflega þakklátur Síldarvinnslunni og Polar Pelagic fyrir þá trú sem fyrirtækin hafi á verkefninu. Það er líka vel við hæfi að fyrsta veiðiferðin með stærri Poseidon hlerana hafi verið farin frá Neskaupstað og aflanum landað þar enda má segja að verkefnið sé með sterka norðfirska tengingu. Atli er fæddur í Neskaupstað árið 1953 og faðir hans var Jósafat Hinriksson, en hann rak fyrirtækið J. Hinriksson sem var stór framleiðandi toghlera. Afi Atla var síðan Hinrik Hjaltason vélstjóri og járnsmiður í Neskaupstað. Jósafat var mikill áhugamaður um söfnun gamalla muna og Sjóminja og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar er einmitt í Neskaupstað. Í móðurættina er Atli komin af Pétursættinni sem á sterkar rætur í Neskaupstað.