Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Eyjum í gærmorgun að lokinni 30 tíma veiðiferð. Aflinn var að mestu þorskur og ýsa. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og spurði hvort menn væru ekki sáttir við aflabrögðin. “Jú, þetta er eins og það getur best verið. Við byrjuðum að veiða á Víkinni í þessum túr en síðan gerði þar vitlaust veður. Þá fórum við á Selvogsbankann og tókum þar eina sköfu og þar með var skipið fullt. Bergur var á nákvæmlega sama róli og við. Þetta er mjög góður fiskur sem fæst, vænn þorskur og fín ýsa. Nú eru lokanir byrjaðar þannig að við höfum takmörkuð svæði til að veiða á og þannig verður það allan aprílmánuð. Ég geri ráð fyrir að nú verði farið að hægja á okkur en yfirleitt dregst afli saman þegar líður á aprílmánuð. Annars er ýmislegt öðru vísi en við erum vanir. Stóri fiskurinn heldur sig til dæmis allur uppi á grunnslóðinni og fyrir utan 12 mílurnar er allt steindautt. Þetta fer allt eftir því hvað er að gerast í sjónum og ætið skiptir þar miklu máli. Við erum að verða varir við skvettur af loðnu en hún er seint á ferðinni. Auðvitað sækir fiskurinn í hana,” segir Birgir Þór.
Vestmannaey hélt á ný til veiða í morgun en Bergur fer í kvöld.