Hinn nýi ísfisktogari Bergs-Hugins, Bergey VE, kom úr sinni fyrstu alvöru veiðiferð til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gærmorgun. Aflinn var fullfermi eða um 75 tonn. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra og spurði fyrst hvar skipið hefði verið að veiðum. „Við byrjuðum út af Vík í Mýrdal, fórum síðan í Skeiðarárdýpið og undir lokin vorum við í Sláturhúsinu út af Hornafirði. Það gekk vel að fiska og aflinn var blandaður. Nú fengum við fyrir alvöru að reyna bátinn og ég er mjög hrifinn af honum. Þetta er svo sannarlega fínn bátur en við erum enn að slípa til og læra á hann og allt um borð. Á millidekkinu virkaði allt vel en böndin þar eru tölvustýrð og við erum enn að læra á þau. Þá þarf eitthvað að laga þarna til fyrir stærri fisk. En þetta lítur afskaplega vel út og menn ánægðir. Þá eru spilin súpergóð. Þetta eru rafmagnsspil sem mjög skemmtilegt er að vinna með. Enn á eftir að stilla þau fullkomlega. Það eru alls engin vonbrigði með þetta skip og hér er allt stærra og rýmra en í gömlu skipunum. Þessir bátur er mjög skemmtilegur; það er gott að fiska á hann, hann er góður í lausagangi og virðist vera mjög gott sjóskip, segir Jón.