Loðnuveiðar hafa gengið vel suður af landinu að undanförnu. Þó var engin veiði í gær vegna brælu. Veðrið hafði heldur skánað í morgun og þá voru bátarnir byrjaðir að kasta. Heimasíðan ræddi um vertíðina við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti NK. „Við erum núna í höfn í Neskaupstað og erum að landa. Farmurinn var 2.700 tonn og af honum fóru 1.300 tonn í vinnslu en annað fer í mjöl og lýsi. Við munum væntanlega láta úr höfn um hádegisbil og þá verður tekið strikið suður á miðin. Við verðum væntanlega komin þangað í kvöld en nú er veitt í grennd við Vestmannaeyjar. Vertíðin hefur gengið vel til þessa – þetta er þrusuvertíð. Bæði við og Börkur höfum til dæmis aflað hátt í 25.000 tonn á vertíðinni hingað til og skipin hafa almennt aflað afar vel. Veðrið hefur verið bærilegt en hafa verður í huga að hægt er að veiða í verri veðrum í troll en í nót og trollveiðin stóð lengi og var drjúg. Útlitið er bara gott að mínu mati varðandi framhald vertíðarinnar. Það er oft sem loðnan fer að þétta sig þegar hún er komin vestur fyrir strenginn en að undanförnu hefur hún verið dálítið tætingsleg. Nú fer í hönd mikilvægasti hluti vertíðarinnar þegar loðnan verður frystingarhæf á Asíu og síðan þegar hrognavinnslan hefst. Japaninn bíður spenntur eftir þessari veislu. Hafró hefur gefið út að kvótinn verði hugsanlega eitthvað skertur en hafa verður í huga að eins og mál standa er fremur ólíklegt að Norðmennirnir nái að veiða það sem þeim var úthlutað. Annars á ekki að vanmeta Norsarana, þeir eru ólseigir. Það er ákveðinn fjöldi norskra skipa sem má veiða samtímis og hin bíða eftir að röðin komi að þeim. Þess vegna liggur fjöldi norskra skipa í höfnunum hér í Fjarðabyggð og bíður. Áhafnir þeirra reyna að finna sér eitthvað til dundurs og nú hafa þeir uppgötvað baðstaðinn Vök uppi á Héraði. Heilu áhafnirnar leggja leið sína þangað og njóta þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða. Það er ávallt ákveðin stemmning á loðnuvertíð og sjómennirnar á loðnuskipunum njóta hennar alveg í botn. Þetta er skemmtilegur tími,“ segir Tómas.