Þessa dagana eru skipstjórar og yfirvélstjórar Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE ásamt Guðmundi Alfreðssyni útgerðarstjóra Bergs-Hugins í Noregi til að fylgjast með smíði nýrra skipa sem eiga að leysa núverandi skip útgerðarfélagsins af hólmi. Skipin eru smíðuð hjá skipasmíðastöð Vard í Aukra sem er skammt frá bænum Molde. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey og Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey og spurði þá hvernig þeim litist á skipin. Birgir Þór sagði að sér litist afskaplega vel á skipin og hvernig staðið væri að smíði þeirra. „Hérna er mjög vel staðið að öllu og segja má að allt sé fyrsta flokks og það er mjög gott að fá tækifæri til að koma hér og benda á ýmislegt sem maður vill leggja áherslu á. Þessi skip eru í rauninni stór-lítil ef svo má að orði komast. Þau eru stutt, eða tæplega 29 metrar að lengd, en þau eru 12 metra breið og há. Menn eru mjög spenntir að fá þessi nýju skip í hendurnar en þau verða væntanlega afhent í sumar,“ segir Birgir.
Jón Valgeirsson skipstjóri á Bergey tekur undir með Birgi og segir að það sé afar gott að fá tækifæri til að koma með fáeinar ábendingar á meðan unnið er að smíðinni. „Ég er mjög ánægður með allt sem ég hef séð hér og mér sýnist þetta vera verklegir og hinir reffilegustu bátar. Það er komin allgóð heildarmynd á Vestmannaey en smíðin á Bergey er skemmra á veg komin, það var verið að hífa nefið á hana núna. Menn bíða spenntir eftir að fá þessi skip. Um borð í þeim verður betri aðbúnaður en í gömlu skipunum og aðstaða á millidekki verður miklu betri. Þá verður allt hljóðlátt um borð vegna þess að spilin verða rafmagnsknúin. Ég hef mikla trú á þessum skipum og það verður gaman að upplifa nýjungar eins og til dæmis tvær skrúfur,“ sagði Jón.