Bergur VE við Faxasker sl. mánudag. Verið er að ljúka aðgerð áður en haldið er til hafnar. Ljósm. Arnar Richardsson

Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE hafa fiskað afar vel að undanförnu. Þau lönduðu bæði fullfermi í Eyjum sl. sunnudag, héldu til veiða strax að löndun lokinni og voru á ný komin með fullfermi til löndunar á mánudagskvöld. Bæði skipin fylltu sig því á innan við sólarhring. Heimasíðan ræddi við Arnar Richardsson, rekstrarstjóra Bergs – Hugins og Bergs og spurði fyrst hvar skipin hefðu verið að veiðum. “Þau voru bæði að veiðum á Víkinni og túrinn hjá þeim gekk eins og í sögu. Þau fylltu sig á rúmum 20 tímum. Þetta kallast víst mok. Aflinn var mest ýsa og þorskur, hinn fallegasti fiskur. Það hefur gengið vel hjá skipunum að undanförnu en frá því um miðjan febrúar hafa þau farið tvo túra á viku. Auðvitað væri freistandi að fara fleiri veiðiferðir en það þarf að vera til kvóti út sumarið. Ávallt er lögð áhersla á að blanda aflann og það þarf oft að gefa sér tíma til að ná í þær tegundir sem mest þarf að hafa fyrir. Auðvitað eru allir ánægðir með gang veiðanna enda væri annað skrítið. Bergur mun halda á ný til veiða á föstudag og Vestmannaey á laugardag og verður það síðasti túr fyrir páska,” segir Arnar.