Frá undirritun þjónustusamningsins. Samninginn undirrituðu Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Ásdís H. Bjarnadóttir yfirverkefnastjóri fræðslumála hjá Austurbrú. Ljósm. Smári Geirsson

Í gær var undirritaður þjónustusamningur á milli Austurbrúar og Síldarvinnslunnar um menntun og fræðslu starfsmanna Síldarvinnslunnar. Samninginn undirrituðu Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar og Ásdís H. Bjarnadóttir yfirverkefnastjóri fræðslumála hjá Austurbrú. Gildir samningurinn til ársins 2026 og kveður hann á um að gerð verði fræðslu- og verkáætlun til næstu tveggja ára. Austurbrú mun meðal annars annast eftirfarandi samkvæmt samningnum:

 • Greiningu á þörf fyrir sí- og endurmenntun starfsmanna Síldarvinnslunnar
 • Framkvæmd og endurskoðun fræðsluáætlunar
 • Náms- og starfsráðgjöf
 • Framkvæmd og skipulag námskeiða
 • Skráningar á námskeið í samstarfi við fulltrúa Síldarvinnslunnar
 • Mat á gæðum námsþátta

Síldarvinnslan mun meðal annars annast eftirfarandi samkvæmt samningnum:

 • Kynningu og upplýsingagjöf til starfsfólks
 • Hvatningu til þátttöku í námskeiðum
 • Miðlun upplýsinga um námskeiðahald
 • Útvegun kennsluaðstöðu og aðgang að kennslukerfi
 • Tryggir að nám sé unnt að stunda í vinnutíma eins og kostur er

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, segir að umræddur samningur skipti miklu máli fyrir fyrirtækið. „Við höfum átt í farsælu samstarfi við Austurbrú og þessi samningur felur í sér áframhald þess samstarfs. Austurbrú kom til dæmis að námskeiðahaldi fyrir starfsfólk Síldarvinnslunnar síðasta vetur og þá var lögð áhersla á heilsu, næringu og svefn með það að markmiði að stuðla að jafnvægi og vellíðan. Mikil ánægja ríkti með þau námskeið. Það er tilhlökkunarefni fyrir okkur Síldarvinnslufólk að fá að njóta þeirrar fræðslu sem boðið verður upp á samkvæmt þeim samningi sem nú var verið að undirrita,“ segir Hákon.