Gott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonGott kolmunnahol. Ljósm. Helgi Freyr ÓlasonAð undanförnu hefur verið þokkalegasta kolmunnaveiði í íslensku lögsögunni. Skipin byrja venjulega að toga við Þórsbankann og síðan er togað í austur í átt að færeysku lögsögunni en ekki farið inn í hana, það er stoppað við línuna. Beitir NK landaði rúmum 1.500 tonnum í Neskaupstað í gær og hélt á kolmunnamiðin strax að lokinni löndun. Heimasíðan ræddi við Leif Þormóðsson, stýrimann á Berki NK og Gísla Runólfsson, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK, í morgun en skipin voru bæði að kolmunnaveiðum. Leifur upplýsti að Börkur væri kominn með 1.650 tonn og hefði aflinn fengist í átta holum. „Það er lengi dregið, yfirleitt í sólarhring eða svo. Aflinn hjá okkur hefur gjarnan verið 150 – 350 tonn í holi og segja má að þetta sé ágætis reytingur. Við eigum að landa í Neskaupstað í nótt og gert er ráð fyrir að við förum einn túr enn á kolmunna áður en makrílveiði kemst á dagskrá,“ segir Leifur.
 
Gísli Runólfsson segir að þeir á Bjarna Ólafssyni séu komnir með 1.200 tonn í þremur holum. „Þetta hefur bara gengið vel hjá okkur núna. Við fengum rúm 300 tonn í fyrsta holi , síðan 470 tonn og loks 380 tonn í gær. Það er hins vegar heldur lítið að hafa í dag,“ segir Gísli.