Beitir NK að kolmunnaveiðum. Ljósm: Helgi Freyr Ólason
Nú er kolmunnavertíðin hafin í færeysku lögsögunni. Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í dag með 1.600 tonn en veiðiferðin hjá honum tók eina tíu daga. Runólfur Runólfsson skipstjóri segir að til að byrja með hafi lítið fengist en síðan hafi ræst úr. „Aflinn fékkst í átta holum og það var lengi dregið, einkum til að byrja með. Lengsta holið var 24 tímar og það er persónulegt met hjá mér. Ég hef aldrei dregið svo lengi áður. Þrjá síðustu dagana fékkst hins vegar þokkalegur afli en fiskurinn gefur sig bara seinni part dags og á nóttunni. Allan tímann vorum við að veiða norðaustur af Færeyjum,“ segir Runólfur.
Beitir NK er búinn að vera að veiðum í fjóra sólarhringa en rétt eins og hjá Bjarna Ólafssyni var léleg veiði hjá honum til að byrja með. Tómas Kárason skipstjóri segir að síðan hafi ræst úr. „Við höfum verið að veiðum 60-80 mílur norðaustur af Færeyjum og það eru ágætis lóðningar hérna núna þó svo þær gefi misjafnlega mikið. Við fengum 450 tonn í gær og vorum að ljúka við að dæla 270 tonnum. Nú erum við komnir með um 1.200 tonn í skipið og það er alls ekki svo slæmt. Hann spáir leiðindaveðri í dag og við ætlum því að nota tækifærið og fara til Þórshafnar þar sem meðal annars verður tekin olía“ segir Tómas.
Börkur NK er að toga á svipuðum slóðum og Beitir en hann var með sitt fyrsta hol í morgun.